Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari er fallin frá

28
Ág

Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari er fallin frá

Anna Gísladóttir, hússtjórnarkennari, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli sunnudaginn 25. ágúst sl.

 

Anna starfaði um árabil hjá Iðnskólanum í Reykjavík við kennslu bóklegra faga fyrir bakara og kjötiðnaðarmenn. Önnu var annt um framþróun iðnmenntunar og uppbyggingu þeirrar öflugu bakarastéttar sem uppi er í dag. Framlag hennar í gegnum árin hefur verið ómetanlegt.

Má því segja hún hafi haldið uppi merkjum föður síns við framþróun iðnnáms og bakarastéttarinnar hér á landi. En faðir hennar, Gísli Ólafsson bakarameistari var lengi vel öflugur félagsmaður í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur sem hann gekk í á þeim tíma sem umræður um setningu iðnlöggjafar og laga um iðnnám stóð sem hæst, en sú löggjöf var samþykkt árið 1928. Þá sat hann í stjórn Bakarameistarafélags Reykjavíkur í alls 22 ár og þar af 18 ár sem formaður en hann var gerður að heiðursfélaga félagsins og sæmdur gullmerki þess. Þá var hann sæmdur gullmerki Iðnaðarmannafélagsins sem og gullmerkjum félagasamtaka bakarameistara í Finnlandi og Svíþjóð en að auki var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til bakarastéttarinnar og iðnmenntunar á Íslandi.

Anna Gísladóttir var alltaf boðin og bún til að leggja sitt af mörkum og tók m.a. þátt í verkefninu „Kaffi bakarans“ sem Landssamband bakarameistara stóð að. Þar gekk hún í störf fyrirsætu og prýddi kaffipoka með meðalbrenndu kaffi frá Mið-Ameríku, eins og sjá má hér að neðan. 

Landssamband bakarameistara vottar fjölskyldu og aðstandendum Önnu dýpstu samúðarkveðjur um leið og þakkað er fyrir dýrmætt framlag hennar til bakarastéttarinnar á Íslandi.

 

Góður árangur íslenska liðsins á heimsmóti ungra bakara

07

Góður árangur íslenska liðsins á heimsmóti ungra bakara

Heimsmót ungra bakara árið 2024 var haldið hér á landi í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi dagana 3. - 5. júní. Landssamband bakarameistara (LABAK) hélt keppnina en er þetta jafnframt í fyrsta skiptið sem heimsmót sem þetta er haldið á Íslandi og þá er Ísland fyrst Norðurlandanna til að halda slíkt mót. Keppnin var afar jöfn og hart var barist um verðlaunasætin, en yfirdómari keppninnar, Bernd Kutscher, upplýsti um að aðeins herslumunur hafi verið á liðunum sem enduðu í 1. - 5. sæti.

Alls tóku lið frá sjö ríkjum þátt, þ.e. Frakkland, Ísland, Kína, Spánn, Svíþjóð, Ungverjaland og Þýskaland. Fyrsta sæti keppninnar hreppti lið Svíþjóðar, skipað þeim Mathildu Jacob, Juliu Holmqvist og Mattias Jogmark. Í öðru sæti lenti lið Spánar, skipað þeim Isa­bela García Castillo, Mónica Rufi­án og Jes­us Sanchez Lopez. Þriðja sætið hlaut lið Frakklands, skipað Romain Benat, Antoine Mar­in og Michael Chesno­ard.

Þá veitti Bernd Kutscher, yfirdómari einnig sérstök verðlaun. Lið Ungverjalands hlaut verðlaun sem nýliðar en þetta var í fyrsta skiptið sem lið frá Ungverjalandi tekur þátt. Kínverska liðið halut verðlaun fyrir afar glæsilegt sýningarstykki og þá hlaut íslenska liðið sérstök verðlaun fyrir hugarfar og áræðni, en íslenska liðið var skipað þeim Heklu Guðrúnu Þrastardóttur, Stafaníu Malen Guðmundsdóttur og Stefáni Bachmann.

Keppnin hefur verið haldin af In­ternati­onal Uni­on of Bakers & Con­fecti­oners (UIBC), alþjóðasamtökum bakara og kökugerðarmanna, allt frá árinu 1972 en eins og áður segir hefur hún aldrei verið haldin af Norðurlandi fyrr. Keppendur voru að vonum ánægðir með það utanumhald og aðstöðu sem LABAK bauð upp á og hlaut Sigurður Már Guðjónsson, formaður LABAK, mikið lof fyrir skipulagið og vinnuna við þessa glæsilegu keppni.

 

Keppendur að lokinni athöfn


Micka­el Chesnou­ard, formaður IUBCSigurður Már Guðjónsson, formaður LABAKHekla Guðrún og Stefanía Malen
Franska borðið
Þýska borðið
Þýska borðið
Íslenska borðið
Kínverska borðið
Kínverska sýningarstykkið
Ungverska borðið
Spænska borðið
Spænska sýningarstykkið
Sænska borðið
Heimsmót ungra bakara haldið á Íslandi

03

Heimsmót ungra bakara haldið á Íslandi

Daganna 3. til 5. júní næstkomandi verður heimsmeistaramót ungra bakara haldið á Íslandi. Keppnin hefur verið haldin af International Union of Bakers & Confectioners (UIBC) síðan 1972. Landssamband bakarameistara (LABAK) stendur fyrir keppninni.

Er þetta í fyrsta skipti sem LABAK stendur fyrir svona stóru móti á Íslandi og í fyrsta skipti á norðurlöndum einnig. Um er að ræða mikinn viðburð sem er þekktur í heimi bakara. UIBC var stofnað árið 1931 í Bútapest og er alþjóðasamband bakara og kökugerðarmanna um allan heim. Sambandið er fulltrúi um 300.000 bakaría í fimm heimsálfum þar sem um fjórar miljónir einstaklinga starfa í bakaríum heimsins. Félagið stendur fyrir alskyns viðburðum um allan heim og samhliða heimsmeistaramótinu mun Ísland verða miðpunktur umfjallana þessara aldagömlu iðngreinar hjá þátttökulöndum.

Sjö lið keppa um heimsmeistaratitilinn

Í ár keppa 7 lið um meistaratitilinn og fer mótið fram í Hótel og veitingaskólanum í Kópavogi. Er Ísland meðal keppenda í ár og eru keppendur tvær efnilegar ungar konur sem skara frammúr á sínu sviði, sem valdar hafa verið af kennurum skólans til að taka þátt og verða fulltrúar Íslands. Einnig verða virtir erlendir dómarar í faginu sem koma til Íslands til að dæma liðinn á meðan keppni stendur. Löndin sem keppa til úrslita eru Ísland, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Svíþjóð, Ungverjaland og Kína og munu fulltrúar þeirra framreiða þjóðlegan bakstur sem dómarar UIBC munu dæma. Fulltrúar Íslands fyrir hönd LABAK eru þær Hekla Guðrún Þrastardóttir og Stefanía Malen Guðmundsdóttir bakarar.

Hekla Guðrún ÞrastardóttirStefanía Malen Guðmundsdóttir

Undirbúningur og fyrsta rennsli verða þann  3. júní frá kl. 14:00 og mun Ísland keppa þar. Þann 4 júní munu keppendur svo mæta á Bessastaði og hitta Eliza Jean Reid forsetafrú og bjóða upp á þjóðlegar kökur í tilefni af heimsmeistaramótinu. Verðlaunaafhending verður 5. júní klukkan 16:30 í Menntaskólanum í Kópavogi, Digranesvegi 51.

 

UIBC sambandið hefur staðið fyrir heimsmeistaramótum bakara og kökugerðarfólks víða um veröld og má nefna að hér á Íslandi var haldið haustið 2022 heimsþing samtakanna, einnig þá í fyrsta skipti í sögu bakara á Íslandi og jafnframt í fyrsta skipti á norðurlöndunum.

 

Streymt er frá keppninni og er hægt að nálgast streymi fyrir sýningarsal hér og fyrir vinnusvæði hér.

 

 Streymi

 

 

Þrettán nemar þreyttu sveinspróf í bakaraiðn

30
Ma

Þrettán nemar þreyttu sveinspróf í bakaraiðn

Í dag, fimmtudaginn 30. maí 2024, þreyttu alls þrettán nemar í bakaraiðn sveinspróf. Í þetta skiptið voru konur í meirihluta en alls sjö konur og sex karlar luku sveinsprófum sínum í dag.

 

Ekki hafa fleiri nemar verið skráðir til sveinsprófs í bakaraiðn síðan árið 2000. Gefur þetta afar góð fyrirheit fyrir framtíðina og ljóst er að áhugi á bakaraiðn hefur aukist frekar en hitt. Sig­urður Már Guðjóns­son formaður LABAK sem er jafnframt formaður sveins­prófs­nefnd­ar­inn­ar var að vonum ánægður með daginn, fjölda nemenda og gæði prófanna, „glæsileg sveinspróf sem þessi boða bjarta framtíð fyrir stéttina“ var haft eftir honum við tilefnið.

Nánari umfjöllun má nálgast á vef mbl.is hér.

 

Nemarnir sem þreyttu sveinspróf sín í dag eru:

Birg­ir Fann­ar Sig­urðar­son, Alm­ar bak­ari

Darri Dór Orra­son, Reyn­ir bak­ari

Finn­ur Guðberg Ívars­son Prigge, Kök­ulist/Bláa lónið

Guðbjörg Ósk Andrea­sen Gunn­ars­dótt­ir, Brikk

Gunn­ar Jök­ull Hjalta­son, Mos­fells­bakarí

Hekla Guðrún Þrast­ar­dótt­ir, Hyg­ge

Kar­en Guðmunds­dótt­ir, Gulli Arn­ar

Lovísa Þórey Björg­vins­dótt­ir, Bæj­ar­bakarí

Matt­hild­ur Ósk Guðbjörns­dótt­ir, Gulli Arn­ar

Mika­el Sæv­ars­son, Kalla bakarí

Óli Steinn Steinþórs­son, Gæðabakst­ur

Pálmi Hrafn Gunn­ars­son, Ikea

Sunn­eva Kristjáns­dótt­ir, Sand­holt

 

Landssamband bakarameistara óskar nýsveinum innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar í komandi störfum.

 

Ný stjórn Landssambands bakarameistara

19
Apr

Ný stjórn Landssambands bakarameistara

Aðalfundur Landssambands bakarameistara, Labak, var haldinn í Húsi atvinnulífsins fimmtudaginn 18. apríl sl.

Á fundinum var kosin ný stjórn félagsins. Sigurður Már Guðjónsson hjá Bernhöftsbakaríi var endurkjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn eru Sigurbjörg Sigþórsdóttir hjá Bakarameistaranum og Sigurður Örn Þorleifsson hjá Bæjarbakaríi. Sæti varamanna í stjórn skipa þeir Ingibergur Sigurðsson hjá Sveinsbakaríi og Vilhjálmur Þorláksson hjá Gæðabakstri/Ömmubakstri.

Á aðalfundinum var farið yfir starf félagsins fyrir komandi starfsár en stór verkefni eru á döfinni, m.a. heimsmeistaramót ungra bakara sem Labak mun standa fyrir í sumar að ósk alþjóðasamtaka bakara og kökugerðarmanna, UIBC. Þá sköpuðust líflegar umræður á fundinum um starfsskilyrði bakaraiðnaðar og framtíðarhorfur hins gamalgróna félags sem Landssamband bakarameistara er.

Heimsins frægasta kaka

01
Mar

Heimsins frægasta kaka

Sacher-tertan er frægasta terta allra tíma og á hún sér mikla og langa sögu. Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara, upplýsti leyndardóma hinnar frægu Sacher-tertu (a. Sachertorte) í viðamiklu viðtali við Matarblað MBL.is ásamt því að deila uppskriftinni meðal lesenda.  

Í viðtalinu bendir Sigurður á þá miklu grósku sem er innan greinarinnar og þá miklu sprengju sem orðið hefur í aðsókn að náminu. 

Lesa má allt viðtalið á síðu MBL.is

 

 

Elíza Reid forsetafrú tók á móti fyrstu Köku ársins

28
Feb

Elíza Reid forsetafrú tók á móti fyrstu Köku ársins

Sala á Köku ársins 2024 hófst í bakaríum Landssambands bakarameistara, LABAK, fimmtudaginn 22. febrúar en Kaka ársins er að venju kynnt í bakaríum í tilefni konudagsins á sunnudaginn. Kakan var formlega kynnt þegar formaður LABAK Sigurður Már Guðjónsson og höfundur kökunnar, Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistaranum, afhentu Elizu Reid forsetafrú fyrstu köku ársins sem þakklæti fyrir allt það sem hún hefur látið af sér leiða fyrir land og þjóð síðustu átta ár líkt og segir í tilkynningu frá LABAK.

Kaka ársins var valin í keppni sem LABAK efnir til árlega og fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir best til þess fallin að hljóta titilinn Kaka ársins. Í ár var keppnin haldin í samstarfi við Nóa Síríus og inniheldur Nóa-smákropp.

Eins og fyrri ár er mikið lagt í köku ársins en í ár er hún er í mörgum lögum. Mjúkir marengsbotnar blandaðir með kókossykri og léttristuðum kókos og heslihnetum. Tertan er fyllt með karamellu og núggat frómas og bragðbætt með ferskri appelsínupúrru. Kakan er hjúpuð appelsínukrydduðum mjólkursúkkulaðiganas með Nóa-smákroppi. Líkt og áður segir er höfundur hennar Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistaranum.

Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land í dag fimmtudag og verður til sölu það sem eftir er ársins.

Brauð ársins 2024

24
Jan

Brauð ársins 2024

Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistaranum sigraði í keppninni Brauð ársins 2024.

Landsamband bakarameistara stóð fyrir keppni um brauð ársins 2024. Sjö frábærar brauðtegundir kepptu til úrslita í keppninni en brauð Eyjólfs Hafsteinssonar, bakarameistara, fór með sigur af hólmi.  

Brauð ársins 2024 er súdeigsbrauð sem samanstendur af íslensku byggi frá Móður náttúru og spíruðu rúgkorni, sesamfræjum og chiagraut. Að mati dómnefndar er Brauð ársins einstaklega mjúkt og bragðmikið með brakandi skorpu. Að þessu sinni skipuðu þau Árni Þorvarðarson, bakarameistara og deildarstjóra bakariðnar hjá MK, Berglindi Festival Pétursdóttir, fjölmiðlakona og brauðunnandi og Sjöfn Þórðardóttir, blaðamaður hjá MBL.is dómnefnd og var einróma í áliti sínu.

Brauð ársins fer í sölu á fimmtudaginn í bakaríum Landssambands bakarameistara

Galdurinn við að grennast með brauðáti!

05
Jan

Galdurinn við að grennast með brauðáti!

Þýski bakara- og konditormeistarinn Axel Schmitt gaf út á dögunum bókina Að grennast með brauðáti (þ. Schlank mit Brot). Í bókinni er að finna fjölmargar uppskriftir og ítarlegar upplýsingar á því hvernig Schmitt náði að grennast á brauðneyslu. 

Í bókinni er einnig að finna ýmis næringarráð og girnilegar uppskriftir. 

Fréttin var birt á mbl.is 

Hátíðarkveðja frá stjórn Landssambandi bakarameistara

03
Jan

Hátíðarkveðja frá stjórn Landssambandi bakarameistara

Stjórn Landssambands bakarameistara óskar félagsmönnum og öllum bökurum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þökkum fyrir árið sem er að líða. 

 

Síða 1 af 6