Ágrip af Sögu Labak

Stofnun LABAK

Landssamband bakarameistara var stofnað í Reykjavík þann 25. janúar 1958. Mörgum bakarameisturum var í fersku minni bakaraverkfall í Reykjavík sem stóð í rúma þrjá mánuði sumarið 1957. Orsakir þess voru þær, að bakarasveinar höfðu sagt upp samningum og kröfðust kauphækkunar, en þá kauphækkun töldu bakarameistarar sig ekki geta veitt nema verðlagsyfirvöldin leyfðu nokkra hækkun á brauðaverði.

Stofnfundur Labak

Verðlagsyfirvöldin synjuðu um þessa hækkun og leiddi það til verkfalls, sem stóð yfir í rúma þrjá mánuði, sem fyrr segir. Bakarameistarafélag Reykjavíkur hafði til þessa verið einu stéttarsamtök, sem bakarameistarar hér höfðu haft með sér, en átök þau, er urðu í sambandi við áðurnefnt verkfall, færðu félaginu heim sanninn um það, að mikil nauðsyn væri fyrir íslenska bakarameistara að hafa með sér heildarsamtök til þess að gæta hagsmuna stéttarinnar. Bakarameistarafélag Reykjavíkur ákvað því að beita sér fyrir því að stofnað yrði Landssamband bakarameistara. Í því skyni skrifaði stjórn félagsins, í septembermánuði 1957, öllum starfandi bakarameisturum úti um landið, til þess að kanna vilja þeirra til þess að stofna slík samtök. Undirtektir urðu strax svo góðar, að sýnt var að stofnun slíkra samtaka myndi framkvæmanleg. Var því boðað til stofnfundar, sem haldinn yrði í Reykjavík dagana 23.-25. janúar 1958. Á stofnfundinum mættu bakarameistarar víðs vegar að, en nokkrir þeirra, sem ekki gátu komið, tilkynntu með símskeyti að þeir vildu taka þátt í stofnun sambandsins.

Varð þátttakan svo mikil, að sambandið var stofnað með aðild 75% allra bakarameistara á landinu. Á stofnfundinum voru samþykkt lög fyrir sambandið og kosin stjórn þess.

Tilgangur sambandsins var:

  • Að safna saman í ein allsherjarsamtök öllum þeim bakarameisturum, er sjálfstæðan   atvinnurekstur höfðu með höndum.
  • Að gæta hagsmuna sambandsmanna í kaupgjalds- og verðlagsmálum, og koma fram sem sameiginlegur aðili fyrir þeirra hönd, þegar um samninga varðandi þau mál var að ræða.
  • Að vera formælandi sambandsmanna gagnvart hinu opinbera og almenningi og gæta hagsmuna þeirra almennt.
  • Að vinna að aukinni fræðslu sambandsmanna, bóklegri og verklegri, m. a. með upplýsinga- þjónustu, eftir nánari ákvörðun sambandsfundar.

 

Samþykkt var að stjórn sambandsins skyldi skipuð sjö mönnum, þremur úr Reykjavík og auk þess einum úr hverjum landsfjórðungi. Í stjórn voru kosnir: Sigurður Bergsson, Guðmundur R. Oddsson og Stefán Thordarsen, allir úr Reykjavík, Sigmundur Andrésson, Vestmannaeyjum, Hlöðver Jónsson, Eskifirði, Steindór Hannesson, Siglufirði og Aðalbjörn Tryggvason, Ísafirði. Formaður stjórnarinnar var kosinn Sigurður Bergsson.

Stofnfundurinn var í alla staði hinn ánægjulegasti og mjög til hvatningar fyrir stéttina í heild.

Fundinum lauk með sameiginlegu borðhaldi í Þjóðleikhúskjallaranum laugardaginn 25. janúar.

Ákveðið var að næsti almenni fundur sambandsins skyldi haldinn í september 1958.

Heimild: Tímarit iðnaðarmanna 32. hefti 1958 bls.1 og bls. 3.

Þrír meistarar sem kenndu við skólann frá 1964 -1996

Ágrip af sögu LABAK

Bakarí í Iðnskólanum

Miðvikudaginn 29. janúar 1964 var hafin verkleg kennsla í bakaraiðn í Iðnskólanum í Reykjavík. Verkleg kennsla í bakaraiðn hafði löngum verið mikið baráttumál bakarastéttarinnar og ríkti mikil ánægja vegna þessa skrefs sem stigið hafði verið til eflingar þessari iðngrein hér á landi. Skólastjóri Iðnskólans bauð nokkrum gestum að skoða hið nýja bakarí skömmu eftir að kennsla hófst þar og rakti þá forsögu málsins í stórum dráttum. Gísli Ólafsson, bakarameistari sem hafði á hendi kennslu í iðngreininni, skýrði fyrir gestum hvernig starfsemin fór fram. Ennfremur fluttu ræður við þetta tækifæri þeir Sigurður Bergsson, formaður Landssambands bakarameistara, og Óskar Hallgrímsson, formaður iðnfræðsluráðs. Forsaga þessa máls var sú að sumarið 1963 var þess farið á leit við menntamálaráðherra að tekið yrði af fé því, sem veitt er á fjárlögum til byggingar Iðnskólans í Reykjavík, til að innrétta bakarí í skólanum. Málaleitun þessi fékk góðar undirtektir og var farið að vinna að teikningum af bakaríinu haustið 1963.

Áður hafði Gísli Ólafsson farið utan á vegum skólans, og kynnti hann sér slíka verklega kennslu í iðnskólum erlendis. Skólinn fékk til afnota hluta af húsnæði, sem upphaflega hafði verið ætlað til annarra nota. Var það smekklega innréttað og í alla staði hið vistlegasta. Í bakaríinu voru öll helstu tæki, sem í bakaríum voru notuð, og höfðu bakarar sjálfir lagt þau til en í því sambandi höfðu þeir notið aðstoðar nokkurra fyrirtækja. Iðnskólinn hafði hins vegar séð um uppsetningu tækjanna og alla innréttingu en sá háttur var jafnan hafður á þegar verklegum deildum hafði verið komið á fót við Iðnskólann.

Innréttingarnar teiknaði Helgi Hallgrímsson, en Kristján Skagfjörð sá um framkvæmdir allar á vegum bygginganefndar skólans og í samráði við skólanefndina. Um leið og bakarar höfðu hrint þessu baráttumáli í framkvæmd var nauðsynlegt að taka allt nám í iðninni til endurskoðunar og skipuleggja á ný. Eins og málum var háttað var sá tími, sem nemarnir áttu að vera í þessum verklega skóla, alger viðbót við iðnskólanám þeirra. Þrátt fyrir það var námstími þeirra í 1. bekk ekki lengri en almennt gerist í öðrum bekkjum skólans. Auk þess var nauðsynlegt að hefja kennslu fyrir bakaranema í námsgreinum, sem ekki hafði verið unnt að veita þeim fullnægjandi tilsögn í til þessa, en það voru einkum gerlafræði og efnisfræði. Þessar fyrirhuguðu breytingar á námsefni bakaranema voru felldar inn í þá heildaráætlun um verklega kennslu í iðnskólunum sem iðnfræðslunefndin vann þá að og vænta mátti að lagðar yrðu fram einhvern tíma á árinu 1964. Bakarastéttin var mjög ánægð með þennan áfanga, sem náðst hafði, og batt miklar vonir við þessa starfsemi. Var þess vænst, að hún myndi stuðla að heillavænlegri þróun stéttarinnar. Gísli Ólafsson upplýsti að meðalaldur bakara væri nálægt 60 árum og um tíma hefði horft til stórvandræða vegna þess að engir nemendur fengust. Var allt útlit fyrir að þessi stétt myndi smám saman hverfa af sjónarsviðinu.

Upphaflega var töluverð ásókn í að komast í nám í iðngreininni og meiri en sveinafélagið taldi æskilegt. Var því sett grein inn í kjarasamninga, sem takmarkaði tölu nemenda, og máttu ekki vera fleiri en einn nemandi á móti hverjum tveim sveinum. Þessi grein var í fyrstu ákaflega illa liðin af meisturum en síðar breyttust viðhorfin og það svo mikið að meistararnir vildu að lokum enga nemendur taka þar sem þeir töldu kostnaðinn við þá svo mikinn en tekjurnar litlar. Töldu þeir jafnvel betra að ráða verkafólk til aðstoðar í bakaríin. Með þessi viðhorf í huga sást þeim yfir þá staðreynd að nemendur eru nauðsynlegir í hverri iðngrein ef stéttin á ekki að líða undir lok. Bakarastéttin sá þó fljótlega hverjar afleiðingarnar yrðu og hin allra síðustu ár hefur þróunin tekið aðra stefnu enda er tími kominn til að taka rösklega til við endurnýjun séttarinnar. Sigurður Bergsson rakti nokkuð þróun þessarar iðngreinar hér á landi. Strangt verðlagseftirlit hefur lengi heft vöxt iðngreinarinnar og gert hana ósamkeppnisfæra um vinnuaflið. Ungt fólk hefur ekki kosið að leggja stund á iðnina og margir bakarasveinar hafa á undanförnum árum snúið sér að öðrum störfum.

Með þessum skóla var stefnt að því að breyta þróuninni. „Ég er þess fullviss,” sagði Sigurður ,,að þessi skóli fyrir bakaranema mun eiga eftir að afla stéttinni margra velhæfra bakara og það verður að vera markmið hans að sjá til þess, að þjóðin fái brauð á komandi árum sem fullnægi sem mest næringarþörf fólksins, framleidd úr beztu efnum af æfðum höndum og heilum sem hlotið hafa þá þekkingu sem komandi tímar hljóta að krefjast af okkur.” Að lokum þakkaði Þór Sandholt gestum komuna og var þeim síðan gefinn kostur á að taka heim með sér hið ágæta kaffibrauð sem nemarnir bökuðu þar eftir tilsögn Gísla Ólafssonar.

Heimild: Tímarit iðnaðarmanna 1. tölublað 37. árgangur 1964 bls.13-14.

Ágrip af Sögu Labak

Bakað í 150 ár

Það sem öðru fremur setti svip sinn á starfsemi Landssambands bakarameistara á árinu 1984 var 150 ára afmæli brauðgerðariðnarinnar á Íslandi.
Sett var á laggirnar sérstök afmælisnefnd, sem vera skyldi stjórn LABAK til aðstoðar við undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarhaldanna. Í nefndinni voru Guðmundur Hlynur Guðmundsson, Erlendur Magnússon og Jón Albert Kristinsson. Reyndar lögðu fjölmargir bakarameistarar og eiginkonur þeirra fram mikla vinnu vegna hátíðarhaldanna, og sýndu þannig einingu og góðan félagsanda. Of langt mál væri að telja upp alla þá fjölmörgu er lögðu hönd á plóg, og skal ekki gert hér. Einungis skulu þessum aðilum færðar innilegar þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf, sem varð til þess, að hátíðarhöldin heppnuðust vonum framar.

Hér á eftir verður vikið að nokkru því helsta sem ráðist var í á afmælisárinu.

Í september og í byrjun október 1984 gekkst LABAK fyrir því, að hingað kom þýskur bakarameistari. Leiðbeindi hann mönnum um brauðaskreytingar. Notuðu margir sér þetta tækifæri, og varð árangurinn stórglæsilegur í mörgum tilvikum.

Dagana 6. og 7. október 1984 var haldin sýningin Bakað í 150 ár. Upphaflega hafði verið ráðgert að halda sýningu á Kjarvalsstöðum þessa sömu daga, en vegna verkfalls opinberra starfsmanna reyndist það ekki unnt. 

Voru nú góð ráð dýr, þar sem hætta var á, að mikil og dýr undirbúningsvinna vegna sýningarinnar færi í súginn, ef ekki væri unnt að halda sýninguna þessa daga. Var því ákveðið að halda sýninguna í samkomusal „Húss iðnaðarins“, að Hallveigarstíg 1 í Reykjavík. Af þessu hlaust nokkur kostnaður og rask, en þó minni en á horfðist í fyrstu. Þá setti verkfall starfsfólks fjölmiðlanna nokkurt strik í reikninginn, en leitast var við eftir þeim leiðum, sem þó voru færar, að kynna sýninguna eins og kostur var. Árangurinn var framar öllum vonum, og má ætla, að milli 5.000 til 10.000 manns hafi komið á sýninguna.

Á sýningunni gaf að líta gamlar og nýjar myndir úr greininni, tæki og áhöld frá fyrri tíð, flestar brauðategundir íslenskra bakaría og loks ýmsa muni, sem tengjast sögu bakarastéttarinnar.
M.a. setti Anton Holt, safnvörður, upp sýningu á brauðpeningum í eigu safns Seðlabanka Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Þá voru sýnd myndbönd, sem vörpuðu ljósi á þróun greinarinnar, og bakað var 12-13 metra langt brauð, sem kynnt var á sýningunni. Loks var sýningargestum gefinn kostur á að bragða á margvíslegum framleiðsluvörum bakaríanna. Er óhætt að fullyrða, að almenningur og fjölmargir úr hópi ráðamanna, sem heiðruðu bakarameistara með komu sinni, hafi orðið nokkru nær um þróun og stöðu brauð- og kökugerðar hér á landi.

Að kvöldi sunnudagsins 7. október 1984 var haldið sérstakt afmælishóf í húsakynnum Rúgbrauðsgerðarinnar að Borgartúni 6, þeim húsakynnum, sem bakarameistarar reistu á sínum tíma, en eru nú nýtt fyrir veislur á vegum ríkisins.

Veislustjóri var Jón Víglundsson. Sá Jón um að veislan færi hið besta fram, og er það mál manna, að hún hafi verið bakarameisturum til sóma.

Á árinu var leitast við að kynna og auglýsa framleiðsluvörur bakaríanna, t.d. með sérstökum auglýsingum í sjónvarpi og víðar. Jafnframt var gert átak í því að kynna greinina á afmælisárinu. 

Í því skyni var búið til margvíslegt kynningar- og áróðursefni, sem einkum var komið á framfæri í tengslum við afmælishátíðarhöldin. Í þessu sambandi má nefna sérstök afmælisveggspjöld, sem m.a. voru hengd upp í bakaríum, sérstaka verðmerkimiða og tilheyrandi pinna, hátíðarplatta úr postulíni, afmælisfána, sem hengdir voru á stangir víða um borgina og á Akureyri, kynningarskilti, sem komið var fyrir víðs vegar í borginni o. s. frv. Þá hafa verið ritaðar greinar um brauð- og kökugerð og þróun hennar, og þeim komið á framfæri við fjölmiðla. LABAK bárust góðar kveðjur og gjafir frá fjölmörgum aðilum á þessum merku tímamótum.

Í kvöldfagnaði í Rúgbrauðsgerðinni í tilefni 150 ára afmælis bakaraiðnarinnar, voru eftirtaldir sæmdir heiðursmerki LABAK úr gulli:

Guðjón Sigurðsson, bakarameistari
Ásgeir Sandholt, bakarameistari
Magnús Árnason, bakarameistari
Sigurður Jónsson, bakarameistari
Georg Michelsen, bakarameistari
Haukur Friðriksson, bakarameistari
Sigurður Kristinsson, forseti Landssambands iðnaðarmanna

Heimild: 150 ára Afmælisrit Landsambands bakarameistara

Labak bakaði veglega afmælistertu fyrir 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar

Ágrip af sögu LABAK

Reykjavík 200 ára

Það kom fljótlega í ljós að ekki var hægt að halda afmælisveislu nema hafa veglega afmælistertu. Afmælisnefnd Reykjavíkur setti sig í samband við LABAK og kynnti hugmyndir sínar. Stjórn LABAK ákvað að snúa sér til Bakarameistarafélags Reykjavíkur og kanna hvort hægt væri að hrinda þessu í framkvæmd.

Undirritaður boðaði til fundar bakarameistara til að kanna undirtektir þeirra á Reykjavíkursvæðinu. Strax kom í ljós mikill áhugi fyrir þessu og var nefnd kosin í málið. Nefndina skipuðu: Guðmundur Hlynur, Stefán Sandholt, Sigþór Sigurjónsson, Sæmundur Sigurðsson og Sveinn Kristdórsson.

Gert var ráð fyrir að tertan myndi nægja fyrir 20 – 30.000 manns
Það var mál manna að framlag bakaranna hefði verið sérlega glæsilegt og tel ég að bakarastéttin hafi sjaldan fengið jafn góða og jákvæða umfjöllun.

Mættu þessir aðilar á nokkra fundi með afmælisnefnd og var ákveðið að tertan skyldi vera 200 metra löng, þ.e.a.s 1 meter fyrir hvert afmælisár borgarinnar, og skyldi hún staðsett í Lækjargötu endilangri. Einnig skyldi búa til sérstaka hátíðartertu með upphleyptu merki Reykjavíkur.

Eftir að nefndirnar höfðu ákveðið hvernig tertan ætti að vera var boðað til fundar meðal bakarameistara. Hugmyndir nefndarinnar voru kynntar, svo og uppskrift af tertunni. Lýstu fundarmenn ánægju endanlegrar niðurstöðu nefndarinnar. Ein af hugmyndum nefndarinnar var að hvert bakarí myndi laga c.a. 9 metra og þyrftu þá um 22 brauðgerðarhús að taka þátt í verkefninu.

Strax kom í ljós að bakaríin voru misjafnlega í stakk búin til að skila þessu og varð niðurstaðan sú að fyrirtækin skiluðu frá 3 og upp í 27 metra löngum tertum.

Uppskriftin var samin af afmælisnefndinni og gefin út. Reykjavíkurborg útvegaði allt efni í tertuna.

Öll framkvæmd gekk mjög vel og tímasetningar stóðust. Hjálpuðust bakarameistarar að við að raða saman tertunni og aðrir luku við að leggja síðustu hönd á aðalhátíðartertuna.

Í áætlun nefndarinnar var gert ráð fyrir að tertan myndi nægja fyrir 20 – 30.000 manns. Vegna gífurlegrar stemmningar og frábærrar veðurblíðu var áætlað að um 80.000 manns hefðu verið í miðbænum. Það var mál manna að framlag bakaranna hefði verið sérlega glæsilegt og tel ég að bakarastéttin hafi sjaldan fengið jafn góða og jákvæða umfjöllun. Enda var ekki að heyra annað en að þeim afmælisgestum, sem voru svo heppnir að fá tertusneið hefðu þótt hún bragðast vel.

Borgarstjórn Reykjavíkur þakkaði fyrir sig með því að bjóða fulltrúum frá þeim fyrirtækjum, sem þátt tóku í framkvæmdinni til hófs í Höfða og síðan á leiksýningu hjá L.R. Að síðustu var snæddur kvöldverður á Kjarvalstöðum.

Að lokum vil ég þakka þeim sem þátt tóku í þessu skemmtilega verkefni.

Guðmundur Hlynur Guðmundsson

Heimild: Fréttabréf Labak 1. tbl 1987