Kaka ársins afhent forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur

22
Feb

Kaka ársins afhent forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tók á móti fyrstu Köku ársins frá formanni Landssambands bakarameistara, Jóhannesi Felixsyni, höfundi kökunnar, Sigurði Má Guðjónssyni, og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Sigurði Hannessyni, í Bernhöftsbakaríi í síðustu viku.

Landssamband bakarameistara, LABAK, efndi nýlega til árlegrar keppni um Köku ársins. Keppnin fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins. Keppnin var haldin í samstarfi við sælgætisgerðina Kólus og voru gerðar kröfur um að kakan innihéldi Sambó Þrist. Sigurkakan hlýtur nafnbótina „Kaka ársins 2018“ og er höfundur hennar Sigurður Már Guðjónsson, bakarameistari og eigandi Bernhöftsbakarís.

Dómarar í keppninni voru Jóhanna Vigdís Arnardóttir frá Samtökum iðnaðarins, Gunnlaugur Örn Valsson, bakari og kökugerðarmaður, og Snorri Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Kólus.

Sala á kökunni hófst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land um konudagshelgina og verður til sölu það sem eftir er ársins.

Mynd
Frá afhendingu kökunnar í Bernhöftsbakaríi, talið frá vinstri: Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Jóhannes Felixson, formaður LABAK, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Már Guðjónsson, höfundur köku ársins og eigandi Bernhöftsbakarís.Mynd: kornax.is

Deila: