Fullveldiskaka LABAK

05

Fullveldiskaka LABAK

Landssamband bakarameistara, LABAK, fagnar aldarafmæli fullveldis Íslands með því að hanna sérstaka fullveldisköku sem verður til sölu í bakaríum félagsmanna víða um land.

Landslið bakara hannaði kökuna í samvinnu við stjórn LABAK, en um er að ræða lagköku með rabarbarasultu á milli laga en er færð í hátíðarbúning með því að bæta við rjóma á milli tveggja efstu laganna og ofan á henni er hvítt súkkulaði. Fullveldiskakan byggir á vinsælum uppskriftum frá 1918.

Afmælisnefnd fullveldis Íslands í samstarfi við Hrafnistu hefur boðið öllum Íslendingum fæddum 1918 og fyrr til hátíðarsamkomu á Hrafnistu í Reykjavík fimmtudaginn 19. júlí þar sem meðal annars verður boðið upp á fullveldiskökuna. Í frétt afmælisnefndar segir að um sé að ræða 64 einstaklinga sem hafi fengið boð í veisluna ásamt gesti og er þetta er í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar sem öllum Íslendingum 100 ára og eldri er boðið saman til sérstakrar veislu. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun heiðra fullveldiskynslóðina með heimsókn af þessu tilefni.

Á sama tíma hefst sala á kökunni í bakaríum félagsmanna LABAK og verður hún til sölu fram yfir hápunkt afmælisársins á fullveldisdaginn 1. desember.

Deila: